Mikilvægustu innviðirnir eru stafrænir
Vefurinn gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í rekstri og starfsemi langflestra fyrirtækja og stofnana í dag. Öflugur vefur getur skilið algerlega á milli feigs og ófeigs hvað varðar samkeppnihæfni.
Notendur og skjólstæðingar stofnana og félagasamtaka gera einnig ráð fyrir fyrsta flokks aðgengi að upplýsingum og þjónustu í gegnum veflausnir.
Ef vefurinn virkar ekki 100% eins og notendur ætlast til kemur það fjótt niður á tekjum og þjónustustigi.
Fjárfesting sem þarf að halda við
Það er því mjög mikilvægt að líta á smíði nýs vefs sem innviðafjárfestingu (fremur en til dæmis markaðskostnað), sem þarf að hlúa að og halda við, rétt eins og um verðmæta fasteign væri að ræða.
Fyrirtæki gera nákvæmar áætlanir um rekstur og viðhald húseigna og tækja - ef verðmætum eignum er ekki haldið við grotna þær niður og bitna á endanum á rekstrar- og samkeppnishæfni.
Vefurinn grotnar ekki niður með sama hætti og steypa og stál, en uppfæra þarf vefinn reglulega með auknum kröfum notenda, og bæta við nýrri virkni eftir því sem nýjar tæknilausnir koma fram og samkeppnisaðilar sækja fram með sín stafrænu útspil.